
Rafeindavirki starfar við uppsetningu, viðhald og viðgerðir rafeindatækja, fjarskiptakerfa og tölvubúnaðar heimila, fyrirtækja og stofnana. Hann vinnur á verkstæðum, í farartækjum í lofti, á sjó og landi, í iðn- og orkufyrirtækjum og notar viðeigandi mælitæki við störf sín og framkvæmir bilanaleit og viðgerðir á rafeindabúnaði.
Marga rafeindavirkja er líka að finna í nýsköpunar og tæknifyrirtækjum af ýmsum stærðum og gerðum. Þar vinna rafeindavirkjar fjölbreytta vinnu við tæknilausnir, forritun og þróun á búnaði.
Rafeindavirki hannar, smíðar og forritar rafeinda- og stýrirásir. Hann hefur haldgóða tölvuþekkingu á vélbúnaði, hugbúnaði og netbúnaði, hefur þekkingu á rafeinda- og fjarskiptalagnateikningum og getur magntekið og unnið verkáætlanir eftir þeim.
Rafeindavirki þekkir helstu aðferðir til útsendinga og móttöku á fjarskiptamerkjum bæði í leiðslum og lofti og hann býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt og getur leiðbeint öðrum.
Meðalnámstími er fjögur ár, sjö annir í skóla auk 24 vikna starfsþjálfun. Náminu lýkur með sveinsprófi sem veitir rétt til starfa í iðninni og inngöngu í meistaranám.
Rafeindavirki er lögverndað starfsheiti.