Ég er hljóðmaður

Framtíðin er full af tækifærum

Hljóð

Starf hljóðmannsins getur verið margvíslegt. Hann starfar við hljóðblöndun og upptökur fyrir tónlistarútgáfu, kvikmyndir, sjónvarpsefni, tölvuleiki, útvarp eða þá hljóðblöndun og uppsetningu hljóðkerfa fyrir tónleika, ráðstefnur, beinar útsendingar og aðra viðburði. Einnig getur hljóðmaður starfað við kerfishönnun og uppsetningu hljóðkerfa fyrir hótel, leikhús, tónleikastaði, verslanir og stofnanir ýmiskonar.

Hljóðmaður hefur þekkingu á eðli hljóðs í lofti og í rafrænu formi, þekkir tengingar og form merkjasendinga hliðrænna og stafrænna hljóðstaðla.
Hann þekkir virkni hljóðmixera og stafrænnar hljóðvinnslu, þekkir mismunandi gerðir og virkni hljóðnema, hljóðeffektatækja, magnara, hátalara og annars búnaðar sem tengist hljóðkerfum.
Hljóðmaður býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt, meta vinnuþörf, gera áætlanir og heldur sér upplýstum um nýjungar sem tengjast hans starfssviði.

Hljóðmenn starfa einnig sem hljóðhönnuðir og upptökustjórar og taka því faglega og listræna ábyrgð á hljóði á þeim viðburðum og útgáfum sem þeir stýra.